apríl 23 2018 0comment

VHE hannar og smíðar nýja kynslóð réttingavéla fyrir álver

VHE tindaréttivélin er hönnuð til að rétta straumleiðara (tinda) í forskautum rafgreiningarkera. Hingað til hefur yfirleitt verið notuð sú aðferð að hita leiðarann með spanhitabúnaði áður en rétting fer fram. Það er gert til að minnka líkur á að sprungur myndist í efninu við réttinguna. Þetta hefur ýmsa ókosti í för með sér, bæði er búnaðurinn mun dýrari í innkaupum og viðhaldsfrekari en einnig tekur hitaferlið það langan tíma að ekki er hægt að vera með réttivélina inní framleiðslulínunni. Þetta hefur einnig í för með sér að leiðararnir eru þá aðeins teknir úr framleiðslulínunni og sendir í réttingu þegar þeir eru orðnir verulega aflagaðir og þegar farnir að skerða gæði framleiðslunnar.

Nýja VHE réttingavélin er með nákvæmum mæli- og staðsetningarbúnaði sem gerir kleift að rétta leiðarana nákvæmlega upp að ákveðnu innstilltu gildi og lágmarka þannig hættu á að sprungur myndist við réttinguna. Þar sem réttingarferlið tekur mjög skamman tíma þá getur vélin verið inní framleiðslulínunni. Hún réttir því leiðarana í hvert sinn sem þeir fara í gegnum verksmiðjuna og þar af leiðandi verður réttingin aðeins minniháttar í hvert skipti.

vilhjalmur