Heilsaðu Framtíðinni – VHE á sýningu í jarðvarmaiðnaði

Heilsaðu Framtíðinni – VHE á sýningu í jarðvarmaiðnaði

Sem stofnmeðlimur í Íslenska Jarðvarmaklasanum mun VHE taka þátt í ráðstefnu um nýtingu jarðvarma, rannsóknir og þróun sem haldin verður 24 – 27 apríl næstkomandi.

Á ráðstefnunni verða hátt í eitt hundrað fyrirlesarar yfir tíu pallborðsumræður, ásamt vinnustofum. Ráðstefnugestir koma frá meira en fjörutíu löndum.

Samhliða rástefnunni verður haldin sýning þar sem ráðstefnugestir fá tækifæri til að kynna sér verkefni, þjónustu og tækjabúnað fyrirtækja í jarðvarma iðnaði og mun VHE vera með bás þar sem áhersla verður lögð á að kynna þjónustu við að loka borholum á öruggan máta á meðan skipt er um holutoppsloka og ýmsum viðhaldsverkefnum sinnt.

Búnaðurinn sem við munum kynna á sýningunni varð til við samvinnu verkfræðinga VHE og starfsmanna HS Orku. Búnaðurinn sem hefur verið prófaður af HS Orku hefur sannað gildi sitt og þörf í rekstri á jarðvarmaholum.

VHE hvetur alla til að koma og sjá það helsta í búnaði og þjónustu við jarðvarmavirkjanir þar sem Ísland er í fararbroddi.

Ný kynslóð réttingavéla fyrir álver

Ný kynslóð réttingavéla fyrir álver

VHE tindaréttivélin er hönnuð til að rétta straumleiðara (tinda) í forskautum rafgreiningarkera. Hingað til hefur yfirleitt verið notuð sú aðferð að hita leiðarann með spanhitabúnaði áður en rétting fer fram. Það er gert til að minnka líkur á að sprungur myndist í efninu við réttinguna. Þetta hefur ýmsa ókosti í för með sér, bæði er búnaðurinn mun dýrari í innkaupum og viðhaldsfrekari en einnig tekur hitaferlið það langan tíma að ekki er hægt að vera með réttivélina inní framleiðslulínunni. Þetta hefur einnig í för með sér að leiðararnir eru þá aðeins teknir úr framleiðslulínunni og sendir í réttingu þegar þeir eru orðnir verulega aflagaðir og þegar farnir að skerða gæði framleiðslunnar.

Nýja VHE réttingavélin er með nákvæmum mæli- og staðsetningarbúnaði sem gerir kleift að rétta leiðarana nákvæmlega upp að ákveðnu innstilltu gildi og lágmarka þannig hættu á að sprungur myndist við réttinguna. Þar sem réttingarferlið tekur mjög skamman tíma þá getur vélin verið inní framleiðslulínunni. Hún réttir því leiðarana í hvert sinn sem þeir fara í gegnum verksmiðjuna og þar af leiðandi verður réttingin aðeins minniháttar í hvert skipti.

Holutappinn opnar nýja möguleika

Holutappinn opnar nýja möguleika

VHE hefur í samvinnu við HS-Orku hannað og smíðað holutappa sem gerir jarðvarma fyrirtækjum kleift að loka borholum á öruggan og fljótlegan máta.  Búnaðurinn er festur ofan á holulokann og tappanum er stungið í gegnum hann og niður í holuna. Þar er hann festur með tryggum hætti og skilinn eftir. Með þessu móti er hægt að sinna ýmsu viðhaldi og eftirliti svo sem útskiptum á holulokanum, skoðun á efsta hluta holunnar, sýnatöku ofl. VHE holutappinn hefur verið notaður við lokun og viðhald á borholum hjá HS-Orku með góðum árangri en fjölmörg önnur fyrirtæki hér á landi og erlendis hafa sýnt þessu verkefni áhuga.